Við í nýrri stjórn Menningarfélagsins höfum ákveðið að stóra verkefnið okkar næstu árin verði að koma upp styttu af Vatnsenda-Rósu á Hvammstanga. Önnur verkefni sem við komum að hafa það að markmiði að vera fjáröflun fyrir styttuna, eða styðja almennt við framgang menningarstarfs í sveitarfélaginu.
Uppbyggingarsjóður Norðurlands vestra styrkti fyrsta áfanga verksins (hönnun, gerð smámyndar, og kynning verksins fyrir íbúum) um 1.200.000 kr nú í síðustu úthlutun. Fyrir þann styrk erum við afar þakklát. Þessi styrkur dugar samt ekki alveg til að klára þennan fyrsta áfanga verksins. Það bjargast samt einhvern veginn.
Myndhöggvarinn Ragnhildur Stefánsdóttir hefur tekið að sér verkið, en hún hefur m.a. gert styttuna af Ingibjörgu H. Bjarnason við skála Alþingis og styttuna af Jóni Ósmann ferjumanni við Héraðsvötnin í Skagafirði, auk fjölda annarra verka.

Fyrirhugað er að klára frumhönnun, kostnaðaráætlun og kynningu fyrir íbúum um næstu páska. Staðarval styttunnar er ekki fullmótað, og verður meðal annars til umræðu á fyrrnefndum fundi.
Þess ber að geta að Kvennabandið í Vestur-Húnavatnssýslu hefur sett upp bæði glæsilegan legstein á leiði Rósu á Efra-Núpi, söguskilti um hana á Vatnsenda og stuðlað að útgáfu bókar um Rósu sem séra Gísli H. Kolbeins ritaði. Okkar verkefni er ekki ætlað að kasta nokkurri rýrð á þetta glæsta starf, heldur að styðja við það. Við erum þess fullviss að við munum eiga gott samstarf við Kvennabandið þegar verkefnið fer af stað með fullum þunga.
Vatnsenda-/Skáld-/Natans-Rósa var stórmerkileg kona sem fléttast auðvitað inn í Illugastaðamálin, og fer vel á því að hún verði fyrsta manneskjan sem gerð er stytta af innan höfuðstaðar Húnaþings vestra.
Hugmyndin er að færa svo sveitarfélaginu styttuna að gjöf þegar hún er uppkomin og auðvitað óskum við náins samstarfs við sveitarfélagið Húnaþing vestra, stofnanir þess og nefndir, á öllum stigum málsins.
Eftir að styttan er komin upp viljum við halda árlega Rósuhátíð – hátíð sem fjallar um ástarljóð, ástríðu og ástarsorg, auk þess að halda á lofti þeirri staðreynd að Húnaþing vestra er vagga hins íslenska ástarljóðs, en þegar ástríðan sem rennur í farvegi hinnar húnvetnsku hógværðar flæðir yfir bakka sína verður ljóðið til. Á þann hátt erum við Húnvetningar líkir Bretum. Auk Rósu, hverrar afreki á þessu sviði bera höfuð og herðar yfir alla aðra, má nefna sjálfan Kormák er Kormáks saga fjallar um, en saga sú er í raun safn ástarljóða, og Ólöfu frá Hlöðum (sem í raun var frá Sauðadalsá á Vatnsnesi). Á hátíðina mætti bjóða bæði fræðimönnum og kórum, dönsurum, leikhópum o.s.frv. Með því að hengja Rósuhátíðina við styttuna (og öfugt) styrkist þessi ímyndarsköpun og markaðslega stöðutaka sveitarfélagsins.

Af hverju erum við að þessu, kann einhver að spyrja.
Nú, fyrir það fyrsta er Rósa Guðmundsdóttir (Skáld-Rósa eða Vatnsenda-Rósa) eitt ástsælasta skáld sem Ísland hefur alið, það að hennar persónu og verkum sé ekki sýnd meiri vegsemd helgast fyrst og fremst af andvaraleysi og karllægri hugsun ráðamanna. Eins og Emily Lethbridge hjá Stofnun Árna Magnússonar segir: „Styttur af karlmönnum (sér í lagi af landnámsmönnum), oftast gerðar af karlkyns listamönnum, er að finna á áberandi stöðum. Ingólfur Arnarson á Arnarhól og Leifur Eiríksson fyrir framan Hallgrímskirkju gnæfa yfir þeim sem þar fara um vegna stærðar, staðsetningar og líkamsstellingar þeirra. Eina styttan af landnámskonu sem finna má í borginni heitir bara „Landnámskonan“ en þessi ónafngreinda og berfætta kona (eftir Gunnfríði Jónsdóttur, reist árið 1955) stendur á lágum stöpli í Hljómskálagarðinum og vekur litla athygli. Það kæmi á óvart ef ferðamenn tækju eftir henni, hvað þá að þeir myndu stoppa og stilla sér upp fyrir myndatöku með henni.“ Grein Emiliy, sem nefnist Feðraveldið í borgarlandslaginu, er góð aflestrar í þessu samhengi.
Í annan stað þá eru Illugastaðamál, þá sérstaklega vegna útkomu bókarinnar Náðarstundar, enn á ný í brennidepli hjá þjóðinni. Vatnsenda-Rósa er merkilegur aðili að þeirri sögu allri og að hafa styttu af henni á heimaslóðum hennar og söguslóðum þessarar harmsögu gæti reynst ferðaþjónustunni afar mikilvægt.

Í þriðja lagi; þegar listaverkið verður formlega afhjúpað verður haldin Rósuhátíð, eins og fyrr segir – hátíð ástar, ástríðu og ástarsorgar. Tónlistarfólk, ljóðskáld og dansarar munu leggja út af og bregðast við hugverki Rósu með flutningi á verkum hennar og með flutningi á eigin verkum í samhengi og andsvari við skáldskap Rósu. Efnt verður til málþings fræðimanna um kveðskap Rósu samhliða hátíðinni, afleidd verkefni gætu hæglega verið bókaútgáfa, til að mynda. Á sama tíma verður fleiri húnvetnskum ástarljóðum og -ljóðskáldum einnig gerð skil á hátíðinni, en þau eru fjölmörg, alveg aftur til sögualdar. Kormákssaga fjallar til að mynda aðallega um ástir Kormáks Ögmundarsonar og Steingerðar Þorkelsdóttur og virðist vera að miklu leyti skrifuð í kringum ástarvísur sem hann orti til hennar. En Kormákshaugur er í landi Barðs við botn Miðfjarðar, örskammt frá Hvammstanga.

Til upplýsingar, fyrir þá sem ekki þekkja til, fylgir hér ágrip af umfjöllun um Rósu af Vísindavef Háskóla Íslands, rituð af Stellu Soffíu Jóhannesdóttur, bókmenntafræðingi: „Lítið hefur verið skrifað um Rósu Guðmundsdóttur (1795-1855) sem oft er kölluð Vatnsenda-Rósa. Samtímaheimildir um búsetu hennar, störf og getu er einkum að finna í umsögnum presta, en þessar umsagnir eru þó heldur þurrar og ná á engan hátt að fanga persónuna sjálfa. Það er þó einnig skrifað nokkuð um Rósu í Natans sögu Ketilssonar. Guðrún P. Helgadóttir skrifar um ævi Rósu og skáldskap í bókinni Skáldkonur fyrri alda og fyrir jólin 2007 kom út bókin Skáld-Rósa, ljósmóðirin Rósa Guðmundsdóttir eftir Gísla H. Kolbeins. Þó svo að Rósa hafi lítið rými fengið í rithöfundatölum og öðrum yfirlitsritum hefur skáldskapur hennar og persóna lifað með þjóðinni. Segir það kannski mest um hversu óvenjuleg kona hún var.[…] Líklega hefur Rósu ekki grunað að skáldskapur hennar ætti eftir að lifa með þjóðinni því ekki sá hún neitt eftir sig á prenti.“

Við hlökkum til samstarfsins við ykkur öll.

Stjórn Menningarfélags Húnaþings vestra,
Sigurður Líndal Þórisson (formaður)
Rannveig Erla Magnúsdóttir (ritari)
Arnar Hrólfsson (gjaldkeri)