Samþykktir

Hér gefur að líta samþykktir félagsins sem samþykktar voru á stofnfundi þann 29. desember 2015.

1. grein.

Félagið heitir Menningarfélag Húnaþings vestra.

2. grein.

Heimili félagsins og varnarþing er á Bókasafni Húnaþings vestra, Höfðabraut 6, 530 Hvammstanga.

3. grein.

Tilgangur félagsins er að hlúa að og styðja við hvers kyns menningarstarfsemi í Húnaþingi vestra. Meginverkefni þess er rekstur húsnæðis þar sem félagsmenn geta lagt stund á hvers kyns menningarstarf. Sitjandi stjórn hverju sinni er einnig heimilt að efna til tímabundinna verkefna sem falla að ofangreindum tilgangi félagsins.

4. grein.

Daglegur rekstur húsnæðis er í höndum stjórnar. Þó er stjórn heimilt að fela öðrum félagsmönnum umsjón með tilgreindum þáttum rekstursins og skal það staðfest af stjórnarfundi og bókað í fundargerð og auglýst félagsmönnum með sannanlegum hætti. Öll störf í þágu félagsins eru unnin í sjálfboðavinnu, en heimilt er að endurgreiða ferðakostnað og önnur persónuleg útgjöld gegn kvittunum og greinargerð.

5. grein.

Félagsaðild er opin öllum sem vilja vinna að eða á annan hátt styðja við markmið og tilgang félagsins. Senda skal aðildarumsókn til sitjandi stjórnar. Sitjandi stjórn hverju sinni er þó heimilt að setja aðgangstakmarkanir að uppákomum, verkefnum eða öðru starfi á vegum félagsins svo fremi sem það stangist ekki á við landslög.

6. grein.

Félagsgjöld skulu ákveðin á aðalfundi ár hvert og skulu þau innheimt af stjórn árlega.

7. grein.

Starfstímabil félagsins er almanaksárið. Á aðalfundi hvert ár skal gert upp árangur liðins árs.

8. grein.

Aðalfundur skal haldinn árlega, eigi síðar en 30. mars. Boðað skal til aðalfundar með sannanlegum hætti með minnst 7 daga fyrirvara. Aðalfundur er löglegur sé rétt til hans boðað. Einfaldur meirihluti ræður úrslitum í atkvæðagreiðslu á fundinum.

9. grein.

Dagskrá aðalfundar skal vera svohljóðandi:

  1. Kosning fundarstjóra og fundaritata.
  2. Skýrsla stjórnar lögð fram.
  3. Umræða og afgreiðsla skýrslunnar.
  4. Reikningar lagðir fram til samþykktar.
  5. Tillögur að lagabreytingum.
  6. Ákvörðun um félagsgjald.
  7. Kosning stjórnar.
  8. Önnur mál.

10. grein.

Kosið skal til stjórnar á aðalfundi og situr hún í tvö ár í senn. Stjórn félagsins skal skipuð fimm félagsmönnum og skipta þeir með sér verkum á fyrsta stjórnarfundi, en þau eru formaður, gjaldkeri, ritari, varaformaður og meðstjórnandi. Tryggja skal að kosið verði um a.m.k. tvö stjórnarsæti á hverjum aðalfundi. Á aðalfundi skal einnig kjósa endurskoðanda reikninga til tveggja ára í senn. Formaður boðar til aðalfundar einu sinni á ári og stjórnarfunda þegar þurfa þykir eða þegar stjórnarmeðlimur biður um það. Stjórnarfundir eru ályktunarhæfir ef meirihluti stjórnar mætir. Meirihluti atkvæða ræður úrslitum mála á stjórnarfundum.

11. grein.

Einungis má breyta samþykktum þessum á aðalfundi og er það sér liður í dagskrá fundarins. Leggja þarf fram breytingartillögu með 7 daga fyrirvara. Til að breytingin verði samþykkt þarf hún að vera studd með 2/3 hluta greiddra atkvæða. Ef breyting er samþykkt þarf einnig að ákveða hvenær hún tekur gildi.

12. grein.

Ef áform eru um að slíta samtökunum skal boðað til almenns félagsfundar. Hann er boðaður á sama hátt og aðalfundur (7. grein). Í fundarboðinu þurfa að koma skýrt fram áform um að slíta samtökunum. Sú tillaga þarf að fá 2/3 greiddra atkvæða. Verði slit félagsins samþykkt skulu fjármál þess gerð upp af óviðkomandi aðilum og eignum þess, ef einhverjar eru að loknu uppgjöri, gefnar til góðgerðarmála.