Sýning Leikflokks Húnaþings vestra, Hárið, fékk nýverið viðurkenninguna Athyglisverðasta sýning ársins, viðurkenning sem veitt er af Þjóðleikhúsinu á hverju ári. Þetta er í tuttugasta og sjötta skipti sem viðurkenningin er veitt en í dómnefnd sitja Atli Rafn Sigurðarson, Sigurður Sigurjónsson, Snæfríður Ingvarsdóttir og Þórey Birgisdóttir. Þetta var tilkynnt á aðalfundi Bandalags íslenskra leikfélaga.

Athygli er vakin á því að Snædrottningin, sem sett var upp um jólin síðast liðin fékk einnig mjög góða dóma, en umsögn Bandalagsins er svo hljóðandi:

“Það er samdóma álit dómnefndar að sýning Leikflokks Húnaþings vestra á Hárinu eftir Gerome Ragni og James Rado í leikstjórn Sigurðar Líndal Þórissonar skuli verða fyrir valinu sem athyglisverðasta áhugaleiksýning leikársins 2018-2019. Um efni Hársins þarf ekki að fjölyrða. Sýningin er hins vegar unnin af gríðarlegum metnaði og hvergi slegið af kröfum við uppfærsluna. Leikmynd, búningar og leikgervi, dansar, tónlistarflutningur, lýsing og hljóðblöndun skapa saman sterka heild. Stór leikhópurinn er skipaður hæfileikafólki sem nýtur sín í botn, og sterkur söngur, leikgleði og orka er allsráðandi. Afslappaður leikurinn skilar frásögninni á einlægan og einfaldan máta þannig að húmor og boðskapur verksins komast vel til skila. Það skal tekið fram að þetta er í fyrsta sinn sem sýning Leikflokks Húnaþings vestra er valin áhugasýning ársins, og það vakti sérstaka athygli dómnefndar hvað starfsemi leikflokksins er öflug í ár. Önnur sýning leikflokksins kom einnig sterklega til greina við valið, Snædrottingin í leikstjórn Gretu Clough, sem er listræn, frumleg og athyglisverð sýning. Tónlistin er falleg og útfærsla leikmyndar og lýsingar er einkar áferðarfögur. Leikhópurinn er að stórum hluta skipaður börnum á grunnskólaaldri sem njóta sín vel.”

Menningarfélag Húnaþings vestra er vitaskuld stolt af Leikflokknum sem er einstaklega sterkur um þessar mundir.

Meðlimir félagsins fengu afslátt af miðaverði, þú getur gerst meðlimur hér.