Hátíðin Eldur í Húnaþingi 2020 þjófstartaði í gær með pubquiz-i í Félagsheimilinu Hvammstanga. Hátíðin verður formlega sett í kvöld og stendur yfir fram á sunnudag n.k.

Aragrúa af skemmtilegum dagskrárliðum er að finna á hátíðinni. Þar má nefna dansnámskeið, leiklistarnámskeið, þríþraut, Fifa-mót, barnastund, borðtennis- og brennómót, zumbapartý, Kleppara-mót, fimleikasýningu, ratleik, púttmót, brunaslöngubolta, kínaskák, körfuboltanámskeið, bjórjóga, kraftakeppni, sápurennibrautarfjör, hoppukastalar, fyrirtækjakeppni, strandhreinsun ofl.

Tónlistin verður líka veigamikill partur af hátíðinni, eins og svo oft áður, og auk heimafólks sem treður upp á Melló Músika kemur eftirfarandi tónlistarfólk fram; Ásgeir, Dóra Júlía, Slagarasveitin, Ingó veðurguð, Stuðmenn, Helgi Hrafn Ingvarsson, Helen Whitaker og Papar.

Dagskrána má finna á vef hátíðarinnar, eldurihun.is, eða með því að skoða bæklinginn hér. Við mælum svo auðvitað með því að fylgjast vel með á Facebook, facebook.com/eldurihunathingi, og Instagram, instagram.com/eldurihun, en framkvæmdanefndin hefur verið dugleg að setja þar inn skemmtilegt efni.

Framkvæmdanefnd hátíðarinnar í ár skipa Arnar Freyr Geirsson, Ásdís Helga Másdóttir, Baldvin Freyr Hannesson, Dagrún Sól Barkardóttir, Fríða Björg Jónsdóttir, Jakob Kristinn Geirsson, Karen Ásta Guðmundsdóttir, Róbert Ragnar Guðmundsson og Viktor Ingi Jónsson.

Myndir af Facebook-síðu hátíðarinnar.