Leikfélag Húnaþings vestra frumsýndi Skógarlíf s.l. laugardagskvöld í Félagsheimilinu Hvammstanga fyrir fullu húsi. Aukasýning verður á morgun, föstudaginn 20. desember, kl. 19:00.

Í leikritinu er fylgst með þroskasögu og ævintýrum Móglí, sem elst upp meðal dýra í frumskóginum. Skógarlíf er glæný leikgerð eftir Gretu Clough og er leikgerðin byggð á The Jungle Book eftir Rudyard Kipling.

Áhorfendur fá að kynnast fjölbreyttum og skemmtilegum sögupersónum, tónlist og hönnun undir indverskum áhrifum í framsetningu fjölbreytts og hæfileikaríks hóps fólks úr Húnaþingi vestra.

Sýningin er afar metnaðarfull, sama í hvaða horn er litið. Leikarar á öllum aldri skila sínu frábærlega. Ljósin, sviðsmyndin, búningar, förðun og allir hinir hlutirnir sem gera umgjörðina einstaklega flotta. Þetta er sýning sem vert er að flykkjast á.

Miðaverð er 3.500 kr. og er hægt að kaupa miða á vef leikflokksins, www.leikflokkurinn.is. Þar að auki verður hægt að kaupa miða við innganginn ef húsrúm leyfir. Posi verður á staðnum.