Nú er það svo að hér í Húnaþingi vestra ríkir allsherjar úrsvinnslusóttkví og erum við nú á sjötta degi hennar. Þar fyrir utan er fólk m.a. „hefðbundinni“ sóttkví og einangrun. Hvað er til bragðs að taka þegar samverustundir utan heimilis eru takmarkaðar og dagarnir renna mögulega saman í eitt?

Við mælum að sjálfsögðu með að fylla dagana af menningu og listum. Setjið upp leikþátt, semjið lag, æfið ykkur á óbóinn, lesið bók, semjið ljóð, stofnið „fjarhljómsveit“ líkt og nokkrir hér í sveitarfélaginu hafa gert (sjá hér og hér) og bara það sem ykkur dettur í hug.

Okkur datt í hug að útvega ykkur eitthvað til að skoða á vefnum. Það er fjöldinn allur af menningar- og listatengdu efni að finna á vefnum og hefur Birta Þórhallsdóttir, forstöðumaður safna í Húnaþingi vestra, tekið saman nokkrar síður með menningartengdu efni og birt á vef Húnaþings vestra, www.hunathing.is. Við í menningarfélaginu höfum reynt að vera með vökul augu fyrir því sem er t.d. streymt beint á vefnum og fleiru sem gæti stytt stundirnar. Nýverið var t.d. Ásgeir með tónleikastreymi og svo hljómsveitin Brek. Við erum náttúrulega sérstaklega áhugasöm um það sem hefur rætur að rekja hingað og tökum glöð við ábendingum um allt slíkt. Við gerum ráð fyrir að setja inn hugmyndir að menningar- og listatengdri afþreyingu af og til, ef safnast í sarpinn. Hér er það sem við höfum í pokahorninu á þessari stundu:

Föstudagur 27. mars
kl. 12:00Tónleikar með Bubba Morteins streymt frá Borgarleikhúsinu.
kl. 12:00Ari Eldjárn léttir lund í föstudagsfrímínútum IÐUNNAR.
kl. 14:00Popppunktur með Dr. Gunna um popp- og rokksögu Íslands í gegnum Kahoot í beinni á Facebooksíðu Hljómahallar.
kl. 16:30Ljóð fyrir ljóð – streymi alla virka daga beint af Þjóðleikhúsinu og Rás 1 –  hægt er að sjá upptökur frá fyrri dögum á vef Þjóðleikhússins.
kl. 21:00Tónleikar Andreu Gylfa ásamt Risto Laur á Græna Hattinum streymt á N4.

Laugardagur 28. mars
kl. 12:00Katla Margrét les söguna um Greppikló, sem er tilvalin fyrir þau yngstu. Streymt frá Borgarleikhúsinu.
kl. 14:00 – Leikarar í Borgarleikhúsinu leika Dungeons and Dragons.
kl. 20:00 – Tónleikar með Helga Björns, streymt á mbl.is og sýnt í Sjónvarpi Símans og á útvarpsstöðinni K100.
kl. 21:30Pallaball í beinni útsendingu hjá K100 í útvarpinu, sjónvarpinu og á netinu.

Sunnudagur 29. mars
kl. 14:00Syngjum saman með Hörpu í beinni úr Hannesarholti.
kl. 20:00 – Upptaka á vef Borgarleikhússins frá verðlaunasýningunni Ríkharður III, ásamt forspjalli.
kl. 20:00Aðrir (alltsvo nr. 2) stofutónleikar Brek, en nú úr nýrri stofu. Streymt á YouTube.

Eigum við ekki að láta þetta duga í þessari færslu, en við lumum á meiru.
Endilega hendið á okkur pósti ef þið eruð með ábendingar um eitthvað sem ætti heima í svona samantekt, stjorn@menhunvest.is.